Um okkur

Að baki Mýrdalshlaupinu stendur ein fjölskylda

Fjögur systkini, makar og foreldrar sjá um allan undirbúning og framkvæmd hlaupsins í sjálfboðastarfi. Við erum alin upp í Vík í Mýrdal og í uppeldinu þótti þátttaka í ungmennafélagsstarfi sjálfsagður hlutur. Við systkinin berum þess öll merki og á fullorðinsárum höfum við hvert á sinn hátt leitast við að vinna að góðum verkum fyrir samfélagið. Okkur þykir mjög vænt um heimahagana í Mýrdalnum og viljum taka vel á móti gestum og kynna þá fyrir einstakri náttúru svæðisins.

Við leggjum áherslu á gott skipulag, öryggi, alúðlegt viðmót og síðast en ekki síst einstaka hlaupaupplifun.

Mýrdalshaupið var haldið í fyrsta sinn árið 2013.  Fyrstu árin voru keppendur um 30 talsins og eingöngu boðið upp á 10 km hlaupaleið. 

Árið 2018 tókum við ákvörðun um að stækka hlaupið, bjóða upp á tvær vegalengdir og leggja meira í alla umgjörð og upplifun hlaupara. Síðan þá hafa móttökurnar verið mjög góðar og hafa færri komist að en vilja undanfarin ár.

Árni Georgsson, kynnir Mýrdalshlapsins 2022 komst svona að orði “ Mýrdalshlaupið er fjölskylduhópefli sem gerir heiminn betri”. Það lýsir okkar upplifun vel og við vonum að það sé rétt að við látum gott af okkur leiða.